Þeir hlusta ekki

Greinar

Þeir, sem fá einbýlishúsalóð í vinning hjá Reykjavík, eru sagðir munu græða fjórfalt lóðarverð við endursölu. Þetta segir okkur, að mikil eftirspurn sé eftir lóðum undir einbýlishús, meiri en undir fjölbýlishús. Segir þetta ráðamönnum Reykjavíkurborgar eitthvað um vilja fólksins?

Nei, alls ekki. Ráðamenn Reykjavíkurborgar vita nefnilega betur en fólkið, hvað gera skal. Fólkið veit ekki, að það sé vitlaust að búa í einbýlishúsum, annað hvort af því að það sé of ameríkaniseruð búseta eða þá að ekki sé nóg pláss í landinu eða þá að erfiðara sé að reka strætó við einbýli.

Ýmis slík hundalógík, sem kemur í stað hlustunar á vilja fólksins, leiðir til stefnu þéttingar á byggð. Ráðamenn Reykjavíkurborgar vilja safna fólki saman, þétta byggð, væntanlega til að gera búsetuna evrópska fremur en ameríska, til að spara takmarkað pláss og til að létta fyrir strætó.

Við höfum auðvitað ýmis dæmi um það í skipulagsmálum, að ekki er hlustað á fólk eða félög þess, til dæmis við færslu Hringbrautar og mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut. Við höfum nefnilega meirihluta í borgarstjórn, sem er búinn að missa jarðsambandið og veit alla hluti bezt sjálfur.

Ef það er svona brýnt að þétta byggð og neita fólki um lóðir undir einbýlishús, af hverju reisir þá borgin ekki sitt Manhattan á nýjum stað, til dæmis í Álfsnesi, þar sem glæsiturnar takmarka ekki svigrúm og útsýni fólks, sem fyrir býr á svæðinu? Af hverju ekki láta gamla bæinn í friði?

Í Álfsnesi getur borgarstjórnarmeirihlutinn látið reisa 100 hæða blokkir með atvinnutækifærum, skólum, verzlunum og þjónustu á neðstu hæðum, svo og kaffihúsum og ýmsum sjarma fyrir 101-fólkið. Í slíku hverfi þarf raunar alls ekki strætó, því að allt lífið er á sama stað að hætti Corbusier.

Þarna getur borgarstjórnarfólk og fylgisfólk meirihlutans keypt íbúðir til að lifa sjálft afleiðingar stefnunnar um þéttingu byggðar, án þess að plaga borgarbúa og þrýsta þeim út í stöðugar erjur út af pólitískri sérvizku, til dæmis hatri á einkabílisma, sem stingur í stúf við vilja fólks.

Af hverju er rekstur strætó merkari en vilji fólks Af hverju má búseta ekki vera amerísk, ef fólk vill það? Hvar er allt þetta plássleysi, sem enginn sér? Ráðamenn í Reykjavík minna á stórborgarstjórann á Seltjarnarnesi, sem ólmur vill færa sparkvöll til að halda úti illdeilum við kjósendur.

Að baki allra þessara vandamála er ein staðreynd. Hinn pólitíski meirihluti í Reykjavík er búinn að vera of lengi við völd og beitir hundalógík í stað þess að hlusta á fólk.

Jónas Kristjánsson

DV