Flestir í steinasteikinni

Veitingar

***

Ópera

Sem betur fer hefur eru ferðamenn orðnir svo margir árið um kring, að rými er fyrir veitingahús, sem að hálfu eða öllu leyti eru ekki hluti af þjóðfélaginu, heldur af svonefndri ferðamannaþjónustu. Slíkur staður er Ópera í Lækjargötu, hálfsetin ferðafólki, sem biður um steinasteik.

Steinasteik hefur marga kosti. Þú sérð hráefnið og kemst að raun um, að það er ferskt og gott. Þú getur matreitt það að vild, hvort sem þú vilt það hálfhrátt eða þrauteldað. Einkum er hún skemmtileg, því að ferðafélagar, sem eru fyrir löngu orðnir leiðir hvor á öðrum, geta talað um matreiðsluna.

Fyrir okkur heimafólkið, sem förum út, af því að við nennum ekki að elda heima hjá okkur, er lítið spennandi að þurfa að elda á veitingastaðnum. Þess vegna þorir ekkert veitingahús enn að bjóða gestum gegn vægu gjaldi að fara í uppvaskið á eftir til að lífga við umræðuefni þeirra.

Óperan er skemmtilega ofhlaðin, hálfgerð leiktjöld. Þegar upp stigann kemur, mætir okkur eftirlíking af torgi með ljósastaurum og gangstéttarborðum undir opnum gluggum, þar sem eftirlíking af veitingahúsi er fyrir innan. Hér kosta aðalréttir 3200 krónur og þríréttað kostar 5700 krónur.

Við settumst við borð á gangstétt, reyndum í hálfrökkri kertaljósa að rýna í mikinn matseðil og tókum eftir, að þægileg músík var kurteislega stillt. Við fengum frekar vont brauð, frekar gott borðvín og grafið gæsakjöt í þurrara lagi meðan við biðum eftir matnum. Þetta gaf svona la-la tón.

Snarpt sítrónubragð var af þunnt sneiddum hörpuskelfiski, sem raðað var á disk að carpaccio-hætti, vættur með vinaigrettu úr sítrónuolíu og balsamik-ediki, ágætis matur.

Kræsingar hafsins reyndust fela í sér hvítlauksristaða hörpuskel fína, hlutlausa tígrisrækju, ofeldaðan humar og snigla í seigari kantinum. Með þessu var ítalskt klettasalat og mikil og góð humarfroða í bolla. Þetta var nokkuð góður réttur og glæsilega upp settur.

Smálúða með kapers og kryddsmjöri blönduðu lime og chili var frekar mikið elduð og þurrari en við mátti búast, sennilega freðfiskur. Bökuð kartafla fylgdi með, svo og staðlað salat staðarins. Þetta var ekki merkilegur réttur.

Ofnsteikt akurhæna var gegnumsteikt, samt ekki tiltakanlega seig, en bragðlítil og laus við villikeim. Mikið magn var af vel gerðri brúnsósu og til hliðar var skemmtilega lítið steikt grænmetisblanda, sem hafði rauðar kartöflur að uppistöðu.

Nú er tiramisu horfið af öllum stöðum í borginni og í staðinn komið crème brulée með skorpu og panna cotta án skorpu. Það fyrra var hér með súkkulaðifroðu og pistasíuís og það síðara með sykurfrauði og skemmtilega súrum bátum af blóðappelsínum, frísklegur eftirréttur. Kaffið var gott.

Jónas Kristjánsson

DV