Fischer drepur engan

Greinar

Þótt Bobby Fischer sé vænisjúkur og orðljótur, má ekki gleyma því, að almennt séð hefur hann að flestu leyti rétt fyrir sér um Ísrael og Bandaríkin, ef litið er framhjá persónulegum ágreiningsefnum hans. Þessi tvö ríki hafa um nokkurt skeið verið alvarlegasta ógnunin við mannkynið.

Ísrael er í senn afar þjóðernissinnað og ofsatrúað ríki, sem hefur áratugum saman ofsótt Palestínumenn, rænt landi þeirra, reist múr á landi þeirra, stolið vatni þeirra og eyðilagt innviði þjóðfélags þeirra. Jafnframt æsir það Bandaríkin til styrjalda við önnur ríki miðausturlanda.

Bandaríkin hafa að minnsta kosti frá upphafi þessarar aldar verið til mikilla vandræða í heiminum. Þau hafa vikið frá lýðræði og tekið upp auðræði, þar sem sérhver frambjóðandi til stjórnmála verður að vera á mála hjá einhverjum, sem eiga peninga, annars er hann vita vonlaus um að ná kjöri.

Þótt þau séu ekki lengur lýðræðisríki í sama mæli og ríki Evrópu, telja Bandaríkin sér kleift að flagga lýðræði út á við og ofsækja önnur ríki, svo sem áður Afganistan og núna Írak, á þeim forsendum, að þar sé verið að koma á fót frjálsum kosningum og öðrum mikilvægum þáttum lýðræðis.

Til stuðnings við þetta hafa Bandaríkin annáluð ríki harðstjórnar og mannréttindabrota, svo sem Pakistan og Úsbekistan, Sádi-Arabíu og Egyptaland. Að svo miklu leyti sem utanríkisstefnu Bandaríkjanna er ekki stjórnað af Ísrael, er henni stjórnað af óvenjulega mikilli hræsni.

Bandaríkin hafa á þessari öld verið andvíg samstarfi þjóða, reynt að rífa Sameinuðu þjóðirnar í tætlur, skipa kunna ofstækismenn í embætti sendiherra hjá alþjóðasamtökunum og forstjóra Alþjóðabankans. Hvað eftir annað hafa Bandaríkin virt vilja Evrópuríkja að vettugi í mikilvægum alþjóðamálum.

Ein helzta birtingarmynd utanríkisstefnu Bandaríkjanna önnur en styrjaldir við umheiminn er óbeit þeirra á fjölþjóðlegum samningum, svo sem um takmörkun á útblæstri koltvísýrings, um Alþjóðlaglæpadómstól í Haag, um bann við jarðsprengjum, um takmörkun á vopnasölu og svo framvegis endalaust.

Bandaríkjunum er í auknum mæli stjórnað af ofsatrúuðu fólki, sem telur heimsendi á næsta leiti, svo að ekki sé þörf á umhverfisvernd, og treystir á bandalag við Ísrael til að undirbúa stórstyrjöldina, sem heimsendir á að fela í sér. Þannig er Bandaríkjunum stjórnað af geðveikum erkiklerkum.

Þótt Fischer sé ekki eins og fólk er flest, er hann ekki hættulegur umhverfi sínu eins og Ísrael og Bandaríkin eru. Það, sem hann hefur, eru bara skoðanir, sem drepa engan.

Jónas Kristjánsson

DV