Órar verkfræðingsins

Greinar

Fyrir mörgum árum var ég fundarstjóri hjá hestamannafélaginu Fáki, þar sem embættismenn voru að segja frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Hestamenn höfðu áhyggjur af reiðleiðum úr Reykjavík upp í Mosfellssveit og áfram austur í Skógarhóla, þaðan sem reiðleiðir liggja suður, vestur og norður í land.

Verkfræðingur Vegagerðar lýsti framkvæmum við Vesturlandsveg hjá Grafarholti og sagði með hroka: “Þið verðið bara að fresta því í þrjú ár að fara upp í Mosfellsbæ.” Setningin greyptist í hug mér og ég sagði við sjálfan mig: “Þessi kerfiskarl á eftir að valda Vegagerðinni miklum vandræðum.”

Nú hefur verið dustað rykið af þessum verkfræðingi. Hann er kominn til skjalanna með hugvitsamlega ráðagerð um að setja GPS-tæki í hvern einasta bíl á landinu. Tækið á að rekja leið bílsins allt árið og verða grundvöllur nýrra og 20% hærri umferðarskatta í stað benzíngjalds og þungaskatts.

Þú ferð um Ölfusið á lágu sveitagjaldi í GPS-tækinu og kemur yfir Hellisheiðina á nokkru hærra gjaldi. Þegar þú ert kominn um Rauðhólahringinn eykst umferðin, því nú fjölgar reykvískum bílum og tækið mælir hærra gjald. Á Miklubraut tifar tækið mjög hratt, enda mikill þungi í umferðinni.

Borgin hefur búið til umferðaröngþveiti á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar fer GPS-tækið hamförum, einkum ef þú ert á ferðinni á viðurkenndum álagstíma. Tækið heldur miklum hraða hvarvetna í gamla bænum, þar sem bílar eru margir og götur mjóar. Vegagerðin hefur náð haustaki á þér.

Í ráðum með verkfræðingnum er nefnd, skipuð nokkrum minni máttar þingmönnum stjórnarflokkana af landsbyggðinni. Þeir eru af því tagi, sem þú manst hvorki hvað heita, né vilt vita hvað heita. Þessir bjánar hafa skilað nefndaráliti um að framleiða vegaskatta á sjálfvirkan hátt með GPS-tækjum.

Nefndarmenn fullyrða, að Evrópusambandið vilji skattleggja fólk eftir tegund umferðarmannvirkja, tíma dags, stærð og þyngd farartækis, svo og eftir sérhverjum þætti, sem veldur umferðartöfum, slítur mannvirkjum og skaðar umhverfið. Það eru semsagt skattaórar víðar á ferðinni en hjá Vegagerðinni.

Við höfum núna benzíngjald, sem skattleggur bíleigendur eftir notkun. Við höfum kílómetragjald til að skattleggja mismun eftir eldsneyti. Við vitum þyngd bíla. Það eru órar að búa til flókið gervihnatta- og rafeindadæmi til að geta líka skattlagt eftir stöðum á landinu og eftir álagstímum.

Áður varð ég vitni af hugvitsamlegri tilraun verkfræðingsins til að koma hópi fólks í vandræði. Nú hefur honum tekizt að koma á framfæri algerum órum til að ógna þjóðinni allri.

Jónas Kristjánsson

DV