Karlrembupáfi í Róm

Greinar

Nú hefur kaþólska kirkjan valið sér afturhaldssaman páfa og kominn tími fyrir Morgunblaðið að nudda glýjuna úr augunum og hætta að skrifa leiðara um páfann sem fulltrúa guðs á jörð. Samkvæmt grundvallarforsendu lúterskunnar er páfinn alveg laus við að vera fulltrúi guðs, allra sízt Ratzinger.

Nýi páfinn mun festa kaþólskuna í sessi sem helzta virki afturhalds í heiminum, andstöðu við kvenréttindi og ýmsa minnihlutahópa á borð við homma. Enda telur biskupinn yfir Íslandi ekki, að nein nálgun verði milli kirkjudeilda kristinna manna í heiminum á valdatíma Benedikts sextánda.

Nýi páfinn mun vinna gegn getnaðarvörnum og fóstureyðingum, hjónaskilnuðum og kvenprestum. Einkum mun hann staðfesta karlrembu kaþólskunnar, sem er tímaskekkja í samfélaginu á nýrri öld. Kaþólsk kirkja er ekki íhald, hún er hreint afturhald, að vísu temprað af velvild í garð fátækra.

Við höfum allt aðra kirkju hér á landi, lúterska kirkju, sem hefur fylgzt með tímans rás. Hún er ekki bara góð við fátæka, heldur stuðlar einnig að félagslegum umbótum, sem eiga að draga úr fátækt. Kaþólska kirkjan stuðlar hins vegar að fátækt um leið og hún réttir fram stuðning við fátæka.

Lengi hefur verið til siðs hér á landi að tala vel um kaþólska kirkju. Ef til vill veldur því minningin um Jón biskup Arason, sem var þó ekki kaþólskari en svo, að hann átti nokkra syni og yrði vafalaust bannfærður af Benedikt sextánda. Enda var Jón Arason meiri nútímamaður en Benedikt.

Rétt er þó að muna eftir, að kaþólska kirkjan er sú stofnun heimsins, sem á lengstan og mestan glæpaferil, enda var lúterskan beinlínis stofnuð, af því að prentlistin kom til sögunnar og gerði almenningi kleift að lesa ritninguna og komast að raun um, að kaþólsk kirkja fór ekki eftir henni.

Þótt kaþólsk kirkja sé vissulega ekki eins vond og hún er talin vera í tízkubókmenntum nútímans, er hún forneskja, eins konar risaeðla í nútímanum. Hún ofsækir kaþólska trúfræðinga, sem eru henni ekki að skapi, og hún tekur þátt í þjóðernisofstæki, til dæmis í Króatíu og á Írlandi.

Það er vel við hæfi, að nýr páfi komi úr Hitlersæskunni og hernámsliði nazista í Ungverjalandi. Benedikt mun ekki geta falið eðli kaþólskunnar jafnvel og Jóhannes Páll gerði.

Jónas Kristjánsson

DV