Sól olíunnar hnígur til viðar

Punktar

OLÍUSKORTUR Í HEIMINUM er nær þér en þú heldur. Það segir John Vidal, sérfræðingur enska blaðsins Guardian. Hann rekur ýmis merki um, að töluvert meira sé notað af olíu en finnist af nýjum olíulindum og að afleiðingarnar muni koma fyrr í ljós en áður var ætlað. Hingað til hefur verið talið, að ófundnar olíulindir muni bæta stöðuna.

HÁMARKSFRAMLEIÐSLA VERÐUR Á NÆSTA ÁRI. Colin Campbell, stofnandi Rannsóknastofnunar olíunotkunar, hefur unnið alla sína ævi við olíuleit hjá ýmsum fyrirtækjum. Hann telur, að hrörnunartímabil olíuframleiðslunnar verði strax erfitt, af því að olía sé hornsteinn nútímans, bæði sem brennsluefni og efni til plastgerðar.

944 MILLJARÐAR AF TUNNUM hafa þegar verið notaðar, ónotaðar olíulindir nema 764 milljörðum af tunnum og ófundnar eru taldar vera olíulindir, sem nema 142 milljörðum af tunnum. Vægi ófundinni olíulinda fer sífellt minnkandi. Af þessum tölum má ráða, að olíuvinnsla hljóti að fara minnkandi á næstu árum.

VERÐIÐ MUN HÆKKA, ekki bara á olíu og benzíni, heldur líka á ferðalögum, landbúnaði, viðskiptum og plastvörum. Lífsstíll nútímans mun smám saman hverfa og ekki koma aftur. Campbell telur af ýmsum ástæðum, að olíubirgðir heimsins séu ofmetnar, meðal annars til að auka verðmæti olíufélaga í bókhaldinu.

DÝRARI LEIÐIR TIL VINNSLU úr þungum olíum, til dæmis í Venezúela, úr tjörusandi, svo sem í Athabasca í Kanada, og úr olíuskífum, einkum í Bandaríkjunum, munu stuðla að hærra verði á olíu og einnig valda miklum umhverfisspjöllum, sérstaklega vinnslan úr olíusandi.

RÓTTÆK UTANRÍKISSTEFNA BANDARÍKJANNA gagnvart Miðausturlöndum er af mörgum talin verfa afleiðing þess, að Bandaríkjastjórn geri sér grein fyrir vandræðunum og vilji koma sér betur fyrir við síðustu olíulindir heimsins, sem einmitt verða í Miðausturlöndum.

John Vidal bendir ekki á, að herða verði á rannsóknum á vetni sem orkugjafa og á ódýrari tækni við að nýta það. Hann segir bara, að kreppa sé í uppsiglingu næsta áratuginn.

DV