Þeir skutu á okkur eins og kanínur

Greinar

Þeir skutu á okkur eins og kanínur, sagði lítill drengur við Dmitrí Solovjof, blaðamann brezka blaðsins Independent í Úzbekistan. Blaðamenn hafa verið bannaðir í landinu, meðan vígamenn ríkisstjórnar Islam Karimof leika lausum hala í landinu og skjóta allt sem þeir sjá á torgum og vegum.

Mótmæli voru tíð í landinu um helgina og hefur Islam Karimof forseti látið skjóta á óvopnaða fundarmenn. Hann er fyrir utan Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson einn helzti bandamaður George W. Bush Bandaríkjaforseta í heiminum um þessar mundir og lætur sjóða óvini sína í stórum pottum.

Blaðamenn og sjónarvottar þeirra hafa lýst í erlendum blöðum, hvernig blóð og mannshlutar fljóta um göturnar í Úzbekistan. Skólahús hafa verið götuð með kúlum, jarðarfarir eru um allt land. Þúsundir manna hafa reynt að flýja til nágrannaríkisins Kirgizistan undir kúlnahríðum vígamanna.

Úzbekistan er hryðjuverkaríki eins og Bandaríkin. Íbúarnir eru flestir múslimar, en stjórinn er gamall kommúnisti, leifar frá tímum Sovétríkjanna. Bush sendir honum fanga til yfirheyrslu af því að Karimof er sá harðstjóri heimsins um þessar mundir, sem mesta áherzlu leggur á pyndingar.

Alla andstöðu við sig túlkar Karimof sem hryðjuverk, stuðning við Talíban og al Kaída. Þetta er Bush mjög að skapi, enda hafa flestir helztu harðstjórar heimsins tekið víg á meintum hryðjuverkamönnum upp á helztu stefnuskrá sína. Þeir flokka alla sem slíka, börn, konur, gamlingja.

Úzbekistan er sárafátækt ríki almenns sultar. Þaðan kemur endalaus röð frásagna af grimmd og pyntingum ríkisstjórnar Islam Karimof, sem hefur fengið mynd af sér með Bush í hvíta húsinu. Evrópsk blöð með fréttaritara á svæðinu hafa komið slíkum frásögum til skila, en minna er skrifað vestanhafs.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, styður Karimof eins og Bush og kallaði heim sendiherra sinn í Úzbekistan, Craig Murray, af því að hann gagnrýndi grimmd Karimof og vígamanna hans og sagði fjölmiðlum frá henni. Murray hefur líka sagt frá fjárstuðningi Bandaríkjanna við vígasveitir Karimof.

Fjöldamorðin í Úzbekistan sýna, að á nýrri öld eru það fyrst og fremst Bandaríkin og stuðningsríki þeirra, svo sem Ísrael og Úzbekistan og Pakistan sem eru ógnun við heimsfriðinn.

DV