Myllusteinn um háls Samfylkingar

Greinar

Samfylkingin hefur fengið varaformann, sem lét eins og berserkur til að ná kjöri og beitti aðferðum, sem sum hver kunna að vera lögleg, en eru örugglega siðlaus, og önnur eru beinlínis ólögleg. Rækilega hefur verið fjallað um þessi gráu svæði hans í fjölmiðlum, meðal annars í DV.

Kjörstjórn flokksins og framkvæmdastjóri segja allt hafa farið löglega fram. Nafnleysingjar vitna í Fréttablaðinu um, að Ágúst Ólafur Ágústsson sé hinn bezti drengur. Sjálfur hefur hann lofað sig í hástert í bréfi til stuðnings sér, sem hann samdi fyrir hönd Sunnlendinga.

Við vitum, að varaformaðurinn laug, þegar hann sagði Unga jafnaðarmenn hafa skilað sínum listum átta dögum fyrir landsfundinn. Þeir skiluðu listum sínum inn tveimur dögum fyrir fund og höfðu þá skipt út miklum hluta hinna 400 fulltrúa, sem þeir töldust eiga, með vafasömum hætti þó.

Þáttur Ungra jafnaðarmanna í kjöri varaformanns er kafli út af fyrir sig. Þar er væntanlega samankomin framtíð fylkingarinnar, sem mun taka við flokkinum, þegar núverandi valdastétt yfirgefur völlinn. Því er framtíðin örugglega fyrirkvíðanlegri en nútíminn í Samfylkingunni.

Seint verður séð, að flokkur, sem hefur Ágúst Ólaf Ágústsson að varaformanni, geti gengið fram fyrir skjöldu í næstu alþingiskosningum sem boðberi nýrra tíma og nýs heiðarleika í stjórnmálum. Samfylkingin verður þá ekki búinn að lofta út skítafýluna eftir landsfund sinn.

Hlegið verður að Samfylkingunni í aðdraganda næstu kosninga, ef hún þykist berjast fyrir gegnsæi stjórnmála, heiðarlegum vinnubrögðum og þvottekta lýðræði. Menn munu benda á varaformanninn og segja: Þið eruð greinilega einn af gömlu stjórnmálaflokkunum og örugglega ekki sá bezti.

Þegar fjölmiðlar fóru að þefa af málinu eftir landsfund, týndist varaformaðurinn í marga daga, en reis síðan upp tvíefldur og sakaði fjölmiðla um gerningaveður. Verður þó ekki annað séð, en fjölmiðlar hafi farið fremur varlega í að fullyrða um skandal hans í Samfylkingunni.

Samfylkingin hefur varaformann að myllusteini um hálsinn, breiðir yfir skandalinn og þarf að hætti Birtings að rækta garðinn sinn betur, áður en henni er hleypt í þjóðargarðinn.

DV