Dómarar leika lausum hala

Greinar

Einn dómara Héraðsdóms Reykjavíkur, Pétur Guðgeirsson, notar ekki almenna siði í dómhúsinu, tekur ekki undir almennar kveðjur og skellir hurðum. Í stað þess að skrifa greinar um áhugamál sín í Úlfljót eða hliðstæð tímarit, notar hann dómsorð til að koma að áhugamálum sínum um óskylt mál.

Fleiri dómarar í héraðsdómi víðar á landinu eru ekki eins og fólk er flest. Guðmundur L. Jóhannesson í Héraðsdómi Reykjaness telur, að konur geti sjálfum sér um kennt, ef þeim er misþyrmt, því að þær eigi ekki að reita karla til reiði. Líklega eru fleiri karldómarar svipaðrar skoðunar.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari telur, að efni fjölmiðla sé eins konar þáttur í dómskerfinu, þannig að draga eigi úr refsingu í dómum í hlutfalli við umfjöllun málsins í fjölmiðlum. Samkvæmt þessu hafa fjölmiðlar fengið eins konar dálksentimetravald, ígildi mánaða á Litla-Hrauni.

Hæstiréttur í heild skýtur niður möguleika á, að vitni fái vernd gegn ofbeldismönnum, sem eru svo skæðir, að jafnvel lögreglumenn neita að kæra þá. Hæstiréttur hefur í dómi sett óyfirstíganleg skilyrði fyrir vitnavernd. Héraðsdómstólar reyna að halda opnum málflutningi leyndum fyrir fjölmiðlum.

Gunnar Aðalsteinsson telur eðlilegt, að barnaníðingar séu ekki dæmdir til refsingar, heldur til að sækja sálfræðitíma. Þetta getur verið áhugaverð kenning, en hún á ekki heima í dómsorðum, heldur á málþingum og tímaritsgreinum. Dómstjórar og félög dómara þurfa að hafa frumkvæði að slíkri umræðu.

Af hverju reyna dómstjórar ekki að aga dómara, sem leika lausum hala? Af hverju heldur félag dómara ekki málþing, þar sem fjallað er um, hvort þola eigi umræðu um óskyld mál í dómsorðum, hver sé réttur ofbeldismanna, hvernig megi níðast á börnum og hvernig megi fela dómsmál fyrir fjölmiðlum?

Dómsmálaráðuneytið getur fyrir hönd framkvæmdavaldsins ekki haft afskipti af afbrigðilegum dómum. Alþingi getur reynt að bæta stöðuna með skýrari lögum. Eini aðilinn, sem getur haft raunveruleg áhrif á gæði dóma, er þó samfélag dómara, eins og það kemur fram í dómstjórn og málþingum og tímaritum.

Hér í DV birtist um helgina skrá um sérkennilega dóma á síðustu mánuðum, sem benda til, að samfélag dómara þurfi að taka á hinum stóra sínum til að siða undarlega dómara.

DV