Mótmæli að atvinnu

Greinar

Kerfiskarlar eru ósáttir við, að fólk sé á kaupi við að mótmæla gerðum þeirra. Þeim finnst fínt að vera sjálfir á kaupi við að gæta hagsmuna stórfyrirtækja, þar sem menn eru líka á kaupi. En þeim finnst ófært, að andstæðingar kerfis og stórfyrirtækja séu á kaupi, það sé nánast ósiðlegt.

Í umræðunni um aðgerðir gegn mótmælendum, sem koma til Íslands, er því mjög haldið á lofti, að við atvinnumenn sé að etja. Þeir eru kallaðir atvinnumótmælendur. Hins vegar eru embættismennirnir ekki kallaðir atvinnuembættismenn og forstjórar fyrirtækja eru ekki kallaðir atvinnuforstjórar.

Mótmælendur leggja á sig mikið erfiði við að mótmæla, ekki sízt á Íslandi, þar sem lögreglu og sérsveitum er sigað á fólk, ekki sízt ef það er eins meinlaust og Falung Gong. Ekki þarf mikið hugmyndaflug til að sjá, að mótmælasamtök finna leiðir til að hafa atvinnumótmælendur á kaupi.

Eins og stjórnmálamenn breyttust í atvinnustjórnmálamenn breytast mótmælendur í atvinnumótmælendur. Það er bara partur af nútímanum. Embættismenn og forstjórar eru núna önnum kafnir við að reyna að gera það grunsamlegt, að mótmælasamtök starfi eins og flokkar, ríki og fyrirtæki.

Endur fyrir löngu var reynt að gera mótmælendur grunsamlega með því að segja þá vera hagsmunaaðila. Menn virtust verða hagsmunaaðilar út á að vera andvígir einhverju. Enginn talaði um, að ranglátir embættismenn og forstjórar væru hagsmunaaðilar. Þessi tilraun dó, hún gekk ekki upp.

Núna er reynt að gera mótmælendur grunsamlega á þeirri forsendu, að þeir séu atvinnumenn. Er Friðrik Sófusson í Landsvirkjun þá ekki atvinnuforstjóri? Er Valgerður Sverrisdóttir þá ekki atvinnuráðherra? Er Magnús Jóhannesson þá ekki atvinnu-ráðuneytisstjóri?

Við skulum ekki láta kerfið villa um fyrir okkur. Ef kerfið ræðst að ósnortnum víðernum landsins eða reynir að koma í veg fyrir, að mótmælt sé heimboðum heimsfrægra morðhunda á borð við kínverska ráðamenn, er eðlilegt að menn safni fé til að létta undir með þeim, sem nenna að mótmæla.

Of lítið er mótmælt hér á landi. Ráðamenn fara sínu fram af hroka og valdníðslu. Við skulum ekki láta þá stýra umræðu um mótmæli með því að misnota orðið: Atvinnumótmælandi.

DV