Við erum Evrópumenn

Greinar

Forseti Íslands er efnislega úti að aka, þegar hann segir, Íslendinga líkjast Bandaríkjamönnum meira en Evrópumönnum og eigi frekar að efla samskipti vestur um haf en austur um haf. Hins vegar geta ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar verið sérstök aðferð hans við að skjalla viðmælendur sína.

Þótt sumt sé líkara með Bandaríkjamönnum og Íslendingum en með Íslendingum og Evrópumönnum, er öfugt farið um mikilvæg atriði. Þar ber hæst, að Íslendingar bera hlýjan hug til lítilmagnans og vilja ekki, að fólk sé skilið eftir í velmeguninni. Vestan hafs er fátækt fátæklingum að kenna.

Velferð er gróin í sögu þjóðarinnar. Hrepparnir tóku fyrir mörgum öldum ábyrgð á velferð íbúanna og gerðu ráðstafanir til að bjarga fátæku fólki frá hungurdauða, þótt misjafnlega hafi oft til tekizt. Á síðustu öld fóru Íslendingar í kjölfar Norðurlanda og byggðu upp flókið kerfi velferðar.

Við sjáum mismuninn til dæmis í afstöðunni til sakamanna. Í Bandaríkjunum eru dómar eins konar hefnd þjóðfélagsins, þar sem líflát er endastöð, en hér hallast menn að hinum öfgunum, eins konar endurhæfingu, sem oft tekst ekki. Hér eru dómar að þyngd ekki nema brot af dómum í Bandaríkjunum.

Ennfremur er sá munur á Bandaríkjamönnum og Íslendingum, að hinir fyrrnefndu eru ofbeldishneigðir, dýrka hernað, fánann, og ofstækisgreinar kristinnar trúar. Hér á landi hafa menn verið friðsamir öldum saman, köstuðu lítils háttar af grjóti á Sturlungaöld, en hafa síðan verið linir og fordómalitlir.

Friðsemi og velferð skilur okkur frá Bandaríkjunum og vegur þyngra í samanburði en áherzla okkur á einstaklingsframtak og frelsi þess. Að því leyti erum við á svipuðu róli og Norðurlönd, sem hafa vikið frá hreinni jafnaðarstefnu og eru með góðum árangri að reyna að samþætta velferð og frelsi.

Að vísu höfum við losnað við verstu öfgar jafnaðarstefnu mikilvægra landa Evrópu, svo sem Þýzkalands og Frakklands. Við sluppum við gjaldþrota kerfi ellilífeyris og við erum sveigjanlegri á vinnumarkaði. Það breytir því ekki, að velferð er grundvöllur og einstaklingsfrelsi yfirbygging.

Veraldarsagan um þessar mundir markast af baráttu milli mjúkra gilda Evrópu og harðra gilda Bandaríkjanna. Við siglum þar á milli, en höfum bara landsýn af Evrópu.

DV