Þriðja höggið í London

Greinar

Eftir Manhattan og Madrid er London orðin þriðja fórnardýr sjálfsvígssveita íslamskra trúarofstækismanna. Stjórnendur ódæðisins í London segja, að Róm og Kaupmannahöfn komi næst, enda eru þær höfuðborgir ríkja, sem hafa eindregnast fylgt styrjaldarstefnu Bandaríkjanna í löndum Múhameðs spámanns.

Sjálfsvígssveitir myndast daglega um þessar mundir. Algengast er, að konungsfjölskyldan og ríkar fjölskyldur í Sádi-Arabíu kosti madrössur, trúarskóla múslima, einkum í Pakistan, þar sem fátækt er mikil og jarðvegur góður fyrir ofstækið, sem Osama bin Laden og al Kaída predika.

Sjálfsvígssveitirnar ganga fyrir óslökkvandi trúarhatri á Bandaríkjunum og fylgiríkjum þeirra fyrir að fara með eldi og brennisteini um lönd múslima, vanhelga helgidóma þeirra, slátra óbreyttum borgurum holt og bolt og eyðileggja innviði heilla ríkja, fyrst Afganistans og síðan Íraks.

Fyrir 11. september 2001 voru sjálfsmorðssveitir einkum ræktaðar í Pakistan og Afganistan. Eftir 11. september er allur heimur múslima gróðurhús trúarofstækis. Gegn þessu verður ekki varizt með því að leggja innviði Íraks í rúst, drepa óbreytta borgara, eyða vatnsleiðslum og rafleiðslum.

Óhjákvæmilega verða hertar aðgerðir á Vesturlöndum til að hindra ætlunarverk sjálfsvígssveita. Brezk stjórnvöld hafa lengi reynt að þrengja svigrúm borgara og fá nú gott færi til framkvæmda. Nafnskírteini verða innleidd og fólk verður að sæta líkamsskoðun við anddyri mikilvægra mannvirkja.

Fáir tala um, að orsök alls þessa er krossferðin, sem George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur blásið til með stuðningi Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Þessa krossferð verður að stöðva, því að heimur kristinna manna græðir ekki á endurtekningu þúsund ára gamalla óhæfuverka í Jerúsalem.

Helzta vandamál heimsins um þessar mundir er ofstækið í samskiptum kristinna manna og múslima. Þetta ofstæki verður að stöðva með auknum samskiptum og auknum viðskiptum. Það verður ekki stöðvað með loftárásum og sjálfsvígsárásum. Því miður stuðla nýir harmar ekki að slíku sáttaferli.

Íslendingar geta þó lagt sitt af mörkum til að draga úr víxlverkun ofbeldis með því að eiga ekki á nokkurn hátt óbeina aðild að ofbeldi bandarískra og brezkra krossfara.

DV