Forvitnin og sannleikurinn

Greinar

Upprunalegur tilgangur frjálsra og óháðra fjölmiðla er að svala forvitni fólks, annarra fjölmiðla að koma sjónarmiðum á framfæri. Í frumsögu íslenzkra fjölmiðla blandaðist þetta á ýmsa vegu, en nú eru fjölmiðlar yfirleitt orðnir meira eða minna óháðir og þurfa sem slíkir að muna eftir upprunanum.

Taka ber með varúð hugmyndum um, að tilgangur frjálsra fjölmiðla sé annar en að svala forvitni fólks. Þar á meðal, að þeir séu hluti af valdakerfinu og lúti hugmyndum áhrifaafla þess um, að fjölmiðlar hafi samfélagslegt eða þjóðfélagslegt hlutverk, sem valdaaðilar kerfisins ákveða.

Svo að fjölmiðill geti svalað forvitni þarf hann að leita sannleikans, alls sannleikans og aðeins sannleikans. Hann má ekki ljúga með því að leyna hluta sannleikans, svo sem vegna regluverks um, að oft megi satt kyrrt liggja vegna einkalífs fólks á opinberum stöðum eða til að valda ekki sárindum.

Það ekki hlutverk frjálsra fjölmiðla, að ákveða, að einhver hluti sannleikans sé óþarfur, komi ekki málinu við, hafi ekki samfélagslegt eða þjóðfélagslegt gildi; að ekki skuli birta sannleika á borð við nöfn og myndir; að einhver hluti sannleikans geti valdið sárindum eða skerði einkalíf fólks.

Frjáls fjölmiðill kann að telja sig þurfa að beygja sig undir regluverk, sem stangast á við ofangreindar forsendur; svo sem undir kenningu Persónuverndar, sem skilgreinir opinber svæði sem einkasvæði; eða undir almenn lög, sem hefta frelsi fjölmiðla, í þeim tilgangi að halda friðinn.

Frjáls fjölmiðill hlýtur samt að vera andvígur þessum kvöðum og lýsa þær andstæðar eðli frjálsrar fjölmiðlunar, það er að segja andstæðar forvitni og sannleika. Þær eiga koma böndum á forvitnina og sannleikann og búa til kerfi um, hvernig satt megi kyrrt liggja. Allt þetta regluverk lýtur lyginni.

Að vísu er gott, að öll dýrin í skóginum séu vinir, sem kunni umgengnisvenjur. Það er hins vegar komið í óefni, þegar búið er til séríslenzkt regluverk, sem setur siði á borð við víðtækt einkalíf og óbeit á sárindum ofar en forvitnina og sannleikann, sjálfar grundvallarforsendurnar.

Vandi íslenzkrar fjölmiðlunar í dag er sá mestur, að of stór hluti fjölmiðlunga hafnar forsendum fjölmiðlunar og telur sjálf höftin vera eins konar heiðursmerki í fínimannsleik.

DV