Búvörustyrkir strikaðir út

Greinar

Nýsjálenzkum bændum hefur gengið vel að laga sig að afnámi styrkja til landbúnaðar. Árið 1984 voru þessi styrkir teknir með einu pennastriki, hverju nafni, sem þeir nefndust, uppbætur, niðurgreiðslur og kvótar, samtals 30 tegundir. Samtök bænda fóru hamförum, en fengu ekki við neitt ráðið.

Ríkisstjórnin gerði ráð fyrir, að 10% bænda yrðu gjaldþrota við breytinguna. Reynslan var hins vegar sú, að 1% bænda fór á hausinn. Hinum tókst að klóra í bakkann og laga búskapinn að lífi án uppbóta, niðurgreiðslna og kvóta. Nú eru 40% útflutningsins frá landbúnaði og 17% af landsframleiðslunni.

Bændur fóru ýmsar leiðir. Flestir sérhæfðu sig og fóru að framleiða vöru á borð við smáralömb og hikkorílömb, þar sem þeir buðu neytendum vöru, sem hafði verið á sérstöku fóðri. Hér á landi hefur fæstum bændum dottið í hug að sérhæfa sig og ná beinu sambandi við neytendur, sem vilja sérhæfða vöru.

Einkaframtakið er illa séð í sambúð bænda. Kerfið hér leggst gegn því, að bændur séu að braska beint. Því er illa tekið, ef bóndi vill auðkenna vöru sína og láta nafn sitt eða jarðarinnar fylgja henni alla leið inn í stórmarkaði. Þú veizt ekki, hvaðan kjötið, osturinn og mjólkin kemur.

Landbúnaðarráðuneytið og bændasamtökin vernda skussana með því að fela þá og afurðir þeirra innan um aðra bændur. Fyrir bragðið verður meðalkostnaður framleiðslunnar miklu hærri en hann þarf að vera. Reynsla nýsjálenzkra bænda sýnir, að framleiðslukostnaður hríðfellur við afnám styrkjanna.

Kostnaður okkar af þessu kerfi er gífurlegur. Helmingur af tekjum bænda kemur í styrkjum frá kerfinu. Framleiðslugeta hvers bónda er skipulögð með framleiðslurétti og kvótum. Allt stefnir þetta að frystingu á gömlu ástandi og dregur úr vilja og getu til breytinga. Dauð hönd ríkisins ræður ferð.

Nýsjálenzkir bændur njóta þess, að hafa misst styrkina og vera frjálsir menn á frjálsum markaði. Ef framsóknarflokkar þar í landi settu fram tillögur um endurheimt styrkjanna, mundu bændur og samtök þeirra mótmæla. Þeir hafa áttað sig á, að frelsið er betra en skjólið og vilja halda frelsinu.

Áratugum saman hefur verið rifizt um íslenzka kerfið, sem kostar skattgreiðendur milljarða á hverju ári. Við getum hætt að rífast og leitað ráða hjá bændum á Nýja-Sjálandi.

DV