Sjóliðsforingjar danska hersins fyrir hundrað árum voru embættismenn, ekki möppudýr, sem hoppuðu kringum geðþótta ráðherra. Þeir fóru um landið og kortlögðu það eins og þeir sáu það, ekki eins og þeim var sagt að sjá það. Ef þeir sáu reiðleiðir, settu þeir þær í gæðaflokka og merktu á kortin.
Löngu síðar tóku Íslendingar við landmælingum og þá tók við þessi sérkennilega ónáttúra íslenzkra embættismanna að kyssa upp á við og sparka niður á við. Stórbændur gátu hringt í skrifstofu landmælinganna og látið taka út reiðleiðir, sem þeim fannst vera fyrir sér. Þær hurfu því á nýjum kortum.
Þetta var eins og í Sovétinu, þar sem viðkvæmum stöðum var sleppt í kortagerðinni. Þar var það pólitísk ákvörðun, hvað var sýnt á kortum og hvað ekki. Það er einmitt þessi sovézka hugsun, sem hefur lengi ráðið embættisfærslu hér á landi, ekki lög og réttur eða annar áþreifanlegur veruleiki.
Þegar Ágúst Guðmundsson varð forstjóri landmælinganna, var þessum geðþótta hætt og aftur farið að kortleggja landið eins og það var landfræðilega, en ekki eins og það átti að vera samkvæmt einhverjum pólitískum sjónarmiðum. Eftirmaður hans tók hins vegar upp ósiði fyrri tíma, pólitísk kort.
Einu sinni var ég á fundi í landbúnaðarráðuneyti út af því að Garðyrkjuskólinn og ráðuneytið höfðu sitt á hvað leigt út sama landið. Núverandi ráðuneytisstjóri hafði að geðþótta ákveðið, hvor ætti að vera leigusali hverju sinni og fleygt bréfum, sem hann mat, að hefðu ekki verið send réttum aðila.
Í annað sinni sendi ég umhverfisráðuneytinu lýsingu á ferðalagi að Fjallabaki með tillögum um ódýra aðgerð til að vernda svæðið. Núverandi ráðuneytisstjóri svaraði þessu bréfi aldrei, enda er hann alinn upp í kerfi, sem svarar aldrei bréfum, þveröfugt við ráðuneyti nágrannaríkjanna.
Þannig eru embættismennirnir, hvort sem þeir heita Magnús Guðmundsson, Guðmundur B. Helgason, Magnús Jóhannesson eða annað. Þeir eru ekki aldir upp í evrópsku þjóðfélagi, þar sem alþýðan tók völdin fyrr á öldum, heldur í íslenzku þjóðfélagi, þar sem alþýðan hefur aldrei tekið nein völd.
Sjóliðsforingjarnir dönsku þjónuðu borgurum. Íslenzkir embættismenn sparka hins vegar í þrælana eins og forverar þeirra gerðu, enda þjóðin skipuð þrælum að langfeðgatali.
DV