FYRIR SLIKK FENGU FORELDRAR OG BRÓÐIR Ómars Stefánssonar bæjarfulltrúa lóðir og tengdafaðir Flosa Eiríkssonar bæjarfulltrúa lóð á Vatnsenda í Kópavogi. Af þeim 2100, sem sóttu um, voru þau meðal þeirra tæplega 200 heppnu, sem fengu lóð á 5-6 milljónir undir markaðsvirði.
DÆTUR FYRIRMENNA SÁTU FYRIR LÓÐUM. Meðal skyldmenna frægðarfólks, sem fengu slíkar lóðir, voru dóttir Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og dóttir Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Listinn yfir hina heppnu er þéttskipaður skyldmennum frægðarfólks.
BÆJARFULLTRÚAR Í KÓPAVOGI sverja og sárt við leggja, að ekkert svindl hafi verið í spilinu. Þeir segjast hafa gengið af fundi meðan afgreidd voru mál skyldmenna þeirra. Þeir setja upp þennan venjulega heilagsandasvip, þegar gula pressan spyr þá um, hvernig standi á ósköpunum.
LÓÐAÚTHLUTUNIN VAR HEFÐBUNDIÐ ÍSLENZKT SVINDL. Fyrirmenn og skjólstæðingar þeirra gengu fyrir almenningi. Þeir fá gefins lífsins gæði, sem standa almenningi ekki opin á sama hátt. Þannig er gangverkið í þjóðfélaginu árið 2005 eins og það var árið 1955 og 1905. Yfirstéttin sér um sína.
LISTINN YFIR HINA HEPPNU VÆRI LEYNDARMÁL, ef ráðamenn í Kópavogi og í þjóðfélaginu fengju að ráða. Hann væri bara flokkaður sem einkamál, sem gula pressan mætti ekki hnýsast í. Þeir mundu þá segja, að gula pressan sé að svala forvitni fólks, hnýsast í einkamál, oj barasta.
Í STAÐ ÞESS AÐ BJÓÐA ÚT LÓÐIR að hætti markaðshyggjunnar voru þrettán-fjórtán milljón króna lóðir látnar af hendi á átta milljónir króna. Hverjum hinna heppnu voru því gefnar fimm-sex milljónir króna. Þetta er siðferðið á Íslandi árið 2005, íslenzk pólitík í hnotskurn.
DV