BÚSETA MANNSINS Í LANDINU hefur á löngum tíma valdið mikilli landeyðingu. Fyrir landnám voru eldgos og hraunflóð að verki, en samt var land allt gróið upp til fjalla.
EFTIR LANDNÁM HEFUR SKÓGUR verið brenndur og sauðfé sigað á hann. Síðan hefur vindurinn náð tökum á lággróðri og feykt honum burt og loks moldinni líka. Þannig þekkjum við rofabörðin.
ÞETTA ERU EKKI NÝJAR FRÉTTIR. En í gærmorgun var sagt frá þeim í BBC. Þar talar Boris Masimov meðal annars við Andrés Arnalds hjá landgræðslunni um Ísland, stærstu eyðimörk í Evrópu.
ÍSLAND ER SÝNISHORN DÓMSDAGS, segir Andrés í viðtalinu. Ísland sýnir, hvernig farið getur fyrir öðrum löndum, ef menn ganga á skóga og ofbeita land. Ísland er víti til varnaðar.
BBC SEGIR AÐ EYÐING LANDS á Íslandi sé ótrúlega mikil og að sandurinn sé fínlegri en annar eyðisandur á jörðinni, jafn fínlegur og sandurinn á tunglinu. Þannig varð Ísland leikvöllur tunglfara.
MENN HALDA AÐ ÍSLAND EIGI AÐ VERA SVART. En rannsóknir sýna, að láglendi var allt gróið fyrir komu landnámsmanna, Kjölur var algróinn og hægt var að fara á gróðri yfir Sprengisand utan 20 kílómetra á hápunkti.
VIÐ VISSUM ÞETTA ALLT. En þegar BBC segir það, fær það aukið vægi.
DV