AF HREINNI TILVILJUN ákvað bankaráð Seðlabankans fyrir nokkrum dögum að hækka laun Seðlabankastjóra. Það var ekki í neinum tengslum við neina útreikninga um, að hækkun dygði til að hækka laun Davíðs Oddssonar um hálfa milljón á mánuði, ef hann flytti sig úr stjórnarráðinu á Köllunarklett.
AF HREINNI TILVILJUN ákvað Birgir Ísleifur Gunnarsson Seðlabankastjóri nokkrum dögum síðar, að heppilegt væri fyrir sig að hætta í bankanum tæpu ári áður en hann yrði sjötugur. Það var ekki í neinum tengslum við neinar ábendingar um, að gott væri, ef rýmt væri til í bankanum, svo að pláss yrði fyrir Davíð Oddsson.
AF HREINNI TILVILJUN ákvað Davíð Oddsson ráðherra hálftíma síðar að kominn væri tími til að rýma til fyrir efnilegu fólki í pólitík. Hann sagði af sér pólitík til að Einar Guðfinnsson gæti orðið ráðherra og Ásta Möller gæti aftur orðið þingmaður. Þetta var hreinn góðvilji ráðherrans í garð samflokksmanna.
ÁSTÆÐULAUST ER AÐ bendla þessar ýmsu tilviljanir saman. Laun Seðlabankastjóra voru ekki hækkuð til að geðjast Davíð Oddsyni, ekki frekar en Alþingi samþykkti fyrir tæpu ári sérstök eftirlaun fyrir ráðherrann til að geðjast honum. Það er bara gul pressa og sóðablöð og skítapappírar, sem fjalla um slíkt.
BIRGIR ÍSLEIFUR Gunnarsson var ekki látinn segja af sér til að rýma fyrir Davíð Oddssyni. Þetta voru sjálfstæðar og óháðar ákvarðanir, sem hvorug hafði neitt með hina að gera. Það er því alger tilviljun, að Davíð hefur hækkað um hálfa milljón í tekjum og getur þar á ofan farið að taka sér ráðherraeftirlaun.
EF EINHHVER EFAST UM, að allt sé með felldu í þessu ferli, getum við verið viss um, að þar eru á ferð öfundsjúkir asnar, sem hafa önugt hugarfar, mótað af langvinnu þurrafylleríi. Það eru menn sem eru alltaf fúlir á móti, sama hvaða blessun mætir þjóð vorri á hraðbraut hennar fram eftir vegi.
DV