ÞAÐ ER RANGT, sem fræðimenn og fjölmiðlar segja, að verðbólgan sé 4%. Það er rangt, ef litið er til þriggja síðustu mánaða. Þá er verðbólgan 10%, en ekki 4%. Lága talan finnst með því að reikna heilt ár aftur í tímann.
Í FLESTUM vestrænum löndum færi allt á hvolf, ef þriggja mánaða verðbólgustig næmi 10%. Ekki hér. Seðlabankinn reynir að vísu að andæfa með sífellt hækkuðum stýrivöxtum, en hættir því sennilega, þegar Davíð Oddsson tekur stjórnina.
RÍKISSTJÓRNIN talar bara um velmegun og þenslu. Víst er rétt, að fullur gangur er á þjóðfélaginu, meðal annars vegna framkvæmda við orkuver og álver. Skuggahliðin á þessum árangri er, að verðbólgan hefur farið úr skorðum.
GÓÐ ER SÚ hagstjórn talin, sem heldur verðbólgu innan við 2% á heilu ári. 10% verðbólga er himinhátt yfir þeirri góðu hagstjórn. Hún sýnir úfinn haus sinn á greiðsluseðlum húsnæðislána, þar sem vextir hækka og höfuðstóllinn hækkar.
ÖNNUR MYNDBIRTING verðbólgunnar er, að kjarasamningar verða lausir um áramótin, af því að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við sinn þátt, hefur leyft verðbólgunni að fara af stað í skjóli þess, að atvinnuástand sé gott.
FÓLK Á MIÐJUM aldri man eftir verðbólgunni, sem skekkti allt verðskyn fyrir nokkrum áratugum. Það var vondur tími, sem fæstir vilja kalla yfir sig aftur. Þess vegna verður ríkisstjórnin að grípa þegar í taumana á verðbólgunni.
jonas@dv.is
DV