>HALLDÓR ÁSGRÍMSSON lýsti um helgina yfir því, að hann væri ósáttur við túlkun Pálma Gestssonar á sér í Spaugstofunni, einmitt þá túlkun, sem tilnefnd hefur verið til Edduverðlauna. Halldór sagðist vilja, að Pálmi talaði við sig um þetta leiðindamál, væntanlega til að siða Pálma til.
BJÖRN BJARNASON er steinhissa á fyrirspurnum DV og Marðar Árnasonar þingmanns um, hverjir hafi fengið diplómatapassa á Íslandi. Grunur leikur á, að óviðkomandi aðilar hafi fengið slíka passa og einkum hafi Davíð Oddsson dregið slíka passa upp úr konfektkassa, áður en hann lauk skrautlegum ferli.
JÓN KRISTJÁNSSON skilur ekkert í vandræðunum með húsnæði aldraðra, þar sem 20 sentimetrar eru milli rúma og einkaeign hvers er ein hilla. Hann er alltaf í viðtölum að lofa bót og betrun, en gerir svo ekkert í málunum. Hann er algert núll í ráðuneytinu og gleymir jafnóðum því, sem hann lofar.
FRAMMISTAÐA ÞRIGGJA íslenzkra ráðherra síðustu daga sýnir okkur í hnotskurn hvernig er ástand íslenzkra stjórnmála. Einn ráðherrann er að velta fyrir sér útreið sinni hjá skemmtikrafti, annar er mánuðum saman að lofa sama hlutnum og hinn þriðji er andvígur öllum efasemdum um stjórnsýslu.
BJÖRN HEFUR RAUNAR alla tíð verið 100% andvígur öllum sjónarmiðum, sem koma utan úr bæ. Hann líkist sjálfvirkri vél, sem stekkur alltaf upp til varna, ef einhver vill bæta stjórnsýsluna. Hann er maðurinn, sem pakkaði gæludýrum í Hæstarétt og er líklega skýrasta sýnishornið af ráðherra.
ER EKKI RÉTTI vettvangurinn fyrir þessa ráðherra og nokkra í viðbót í Norðurlandaráði, þar sem mest er talað og minnst er gert í heiminum um þessar mundir?
DV