Ráðherra og forstjóra að kenna

Punktar

ÞRENGSLIN Á SÓLVANGI í Hafnarfirði eru sér á parti. Slík þrengsli eru sjaldgæf á elliheimilum hér á landi. Sem betur fer er ekki regla á elliheimilum, að 20 sentimetrar séu milli rúma og einkapláss fólks sé ein hilla. Sólvangur er til skammar.

STJÓRNENDUR SÓLVANGS fá meira fé til rekstrarins fyrir hvert gamalmenni, sem þeir troða inn. Þeir fá peninga frá ríkinu fyrir hvern einstakling, meiri peninga en aðrar stofnanir fá. Sólvangur fær fullt gjald fyrir umframfólkið, þótt það kosti ekki meira húsrými.

HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTIÐ er samsekt Sólvangi. Þar hefur verið samþykkt að leyfa troðninginn. Ráðuneytið heimilar 85 pláss á Sólvangi, sem er langt umfram eðlilega notkun. Nær væri að setja 60 manns eða lægri tölu sem hámark notenda Sólvangs.

JÓN KRISTJÁNSSON heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á því, að ráðuneytið hefur brotið lög og reglur með því að heimila ofnotkun Sólvangs. Hann er lögbrjóturinn. Erna Fríða Berg, forstjóri Sólvangs, ber svo ábyrgð á ofnotkuninni, sem er notuð til að þéna peninga.

ÞESS VEGNA ERU blaðamenn ekki velkomnir á Sólvang, þótt þeir séu velkomnir á Eir og aðra slíka staði. Eir er nefnilega með sitt á hreinu. Sólvangur þarf hins vegar að fela lögbrot og rangindi, sem Erna Fríða Berg forstjóri og Jón Kristjánsson ráðherra standa fyrir.

JÓN KRISTJÁNSSON hefur í tæpt ár lofað endurbótum á þessu slæma ástandi Sólvangs. Hann hefur þennan tíma ekki lyft hendi til að efna loforðin. Í hans hugarheimi endar ferlið við loforðin. Ytri aðstæður taka svo við að hans mati. Hann þykist vera peð í framvindunni.

ÞETTA ER RUGL ráðherrans. Hann ber ábyrgð á orðum sínum eins og allir menn bera ábyrgð á orðum sínum. Þótt hann sé stjórnmálamaður, hefur hann enga undanþágu. Hann ætti að lána Sólvangi heimili sitt og flytjast sjálfur á Sólvang.

DV