Bjánar við völd

Punktar

CHRISTOPHER MEYER, sem var sendiherra Breta í Bandaríkjunum, hefur lýst í Guardian skelfilegri heimsku og bjánaskap Tony Blair og ráðgjafa hans í opinberri heimsókn í Washington. Bandaríkjamenn héldu um magann og hlógu að föruneytinu.

JOHN PRESCOTT ráðherra reyndi að slá um sig með skoðunum á “Balklöndum” og “Kovasa” samkvæmt orðfæri hans. Jonathan Powell og Alastair Campbell voru önnum kafnir að klippa sendiherrann út úr boðum og komast sjálfir í staðinn.

TONY OG CLAIRE Blair voru eins og túristar frá miðlöndum Bretlands, störðu opineyg á frægðarfólk úr leikara- og söngvarabransanum. Lýsing sendiherrans á bjánaskapnum er stórfengleg og vekur skilning á fylgispekt Blair við Bush.

MEÐAN TONY Blair starði í vímu ferðamannsins á allt, sem hann sá, voru Powell og Campbell að plotta framhjá honum í farsímum í öðrum bílum. Meyer sendiherra segir sér hafa tekizt að hindra brögð þeirra, en mikill tími hafi eyðst.

MEYER SENDIHERRA telur forsætisráðherra sinn, ráðherra hans og ráðgjafa vera hreina fávita. Það eina, sem Powell og Campbell hafi kunnað, var að ljúga í Mirror og Sun kjaftasögum um, hvað þeir hafi verið klárir og sniðugir.

FÁHEYRT ER, að fyrrverandi sendiherra lands segi slíkar sögur af ráðamönnum þjóðar sinnar í viðtali við dagblað. Christopher Meyer verður því seint sakaður um hugleysi.

EN ER HANN ekki bara einmitt að lýsa ráðamönnum eins og þeir eru flestir í raun? Og er hann ekki að lýsa frati á kjósendur, sem gera ruglaða sölumenn snákaolíu að landsfeðrum sínum.

DV