PERSÓNUVERND er söm við sig. Forstjóri hennar, Sigrún Jóhannesdóttir, amast við eftirlitsmyndavélum í ársskýrslu sinni, telur þær grafa undan rétti fólks til einkalífs á almannafæri. Þetta er einkennilegt hugtak, einkalíf á almannafæri.
EINKALÍF túlkar Persónuvernd svo, að það nái langt út fyrir heimili fólks, nái til dæmis til alls konar hegðunar fólks á almannafæri. Sigrún hefur sérstaklega túlkað þá skoðun, að einkalífshelgi fylgi fólki eins og blaðra á vegferð þess um opinbera staði.
ÓBEIT Persónuverndar á eftirlitsmyndavélum er sömu ættar og óbeit hennar á aðgangi almennings að tjónasögu bíla og óbeit hennar á aðgangi almennings að ættfræði á vefnum. Svindl í bílasölu og ættir fólks eru hrein einkamál að mati hennar og forvera hennar.
ALLT LÍF þessarar stofnunar snýst um að loka gögnum fyrir fólki, að vinna gegn því, sem er hornsteinn lýðræðis í heiminum, það er að segja gegnsæi. Persónuvernd vill, að peningar séu einkamál, stjórnmál séu einkamál, glæpir séu einkamál.
STOFNUNIN hefur farið út fyrir verksvið sitt með því að reyna að segja fjölmiðlum fyrir verkum. Óumbeðin hefur hún gefið út álit, sem gagnrýnt hefur verið af prófessor í lögfræði. Álitið felur í sér, að fréttamenn megi ekki segja fréttir.
PERSÓNUVERND hefur haft mikil áhrif til ills. Nú æpa allir “einkamál”, þegar þeir hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Þannig telur utanríkisráðuneytið, að það sé einkamál fólks, hvort það fái diplómatapassa. Þetta eru sjúkleg áhrif frá Persónuvernd.
FORVERI Persónuverndar var Tölvunefnd, sem ætlað var að fjalla um tölvugögn. Nú er stofnunin byrjuð að og á eftir að valda miklum skaða, áður en hún verður aflögð. Baráttan gegn eftirlitsmyndavélum er dæmi um það.
DV