Risaeðla í ríkiskerfinu

Greinar

Við eigum hátæknisjúkrahús, Landspítalann. Við getum stækkað hann, ráðið fleira fólk, keypt betri tæki. Þannig höfum við hátæknisjúkrahús, sem endist og endist. Það er hins vegar ekki bara óþarft, heldur beinlínis skaðlegt að kasta mörgum milljörðum í nýtt hátæknisjúkrahús, sem síðan þarf að reka.

Hátæknisjúkrahús eru staður fyrir flóknar pillugjafir og enn flóknari uppskurði með nýjustu tækjum fyrir tiltölulega fáa sjúklinga. Við erum komin vel á veg á því sviði, sérstaklega ef unnt væri að ná tökum á rekstri Landsspítalans, sem nú er rekinn með of stórri og flókinni yfirbyggingu fínimanna.

Lýður Árnason læknir hitti naglann á höfuðið í stuttri grein í Morgunblaðinu, þar sem hann benti á, að flöskuhálsinn væri ekki fólk með flókna sjúkdóma fyrir hátæknisjúkrahús. “Vandinn er elli, geðsjúkdómar, fíkniefni, hræðsla og leti.” Þetta eru verkefnin, sem heilsugeirinn þarf að ráða við.

“Meðan eldri borgarar liggja hver um annan þveran á ríkisstofnunum, fíklum blandað saman, gömlum sem ungum og allir settir undir sama hatt, geðveikum úthýst, deildum lokað og mannekla viðvarandi, finnst mér ótækt að bjóða upp á óráðshjal eins manns, sem þetta hátæknisjúkrahús … er”

Þetta er stutt og laggóð lýsing Lýðs á óleystum verkefnum í heilbrigðisgeiranum. Í stað þess að verja tiltölulega litlu fé til að leysa þau, þá er hlaupið í milljarðasukk, af því að Davíð Oddsson fékk krabbamein og heimtaði hátæknihús. Hvernig er það, erum við ekki laus við Davíð úr pólitík?

Ruglið um hátæknisjúkrahús hefur sefjað stjórnmálastétt landsins. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja hluta af söluverði Símans í þessa mestu sukkhugmynd síðustu áratuga. Ef ekki verður stungið við fótum, lendum við með nýja risaeðlu í ríkiskerfinu, án þess að heilsufar verði bætt.

Svo virðist sem ráðamönnum lands og borgar, svo og ýmsum valdamönnum í stjórnarandstöðunni á hvorum stað, sé fúlasta alvara í að knýja fram snarvitlausa framkvæmd og glata þar með tækifæri til að bæta heilsu þjóðarinnar, einkum elli hennar, geð hennar, fíknir hennar, hræðslu hennar og leti.

Lýður Árnason læknir hefur séð, að hugmyndin um sérstakt hátæknisjúkrahús er fjarstæða, sem leysir ekki vandræðin í heilbrigðismálum. Þjóðin þarf að stöðva þetta sukk.

DV