Frændur okkar dóu út eftir að hafa lifað nærri fimm aldir á Grænlandi, hálfa sögu Íslandsbyggðar. Grænlendingar reyndu eins og Íslendingar að lifa af kvikfjárrækt, í stað þess að lifa af veiðum á fiski og sel og hval. Þeir eyðilögðu gróður landsins og hurfu síðan úr sögunni, aðeins okkur harmdauði.
Frændur okkar á Grænlandi lifðu á landinu, ekki í landinu, eins og Ínúítar gerðu. Okkar menn þrjóskuðust við að bera evrópsk klæði, nota trébáta og málmvopn, meðan Ínúítar voru í selskinni, réru kajökum og áttu fullkomnasta veiðivopn í heimi, skutulinn, úr beini. Enda lifðu Ínúítar af kuldann.
Í stað þess að læra af Ínúítum og gera við þá kaup, litu Grænlendingar niður á þá og kölluðu skrælingja. Í hroka sínum fluttu þeir inn kirkjuviði, rauðvín og steinda glugga í stað þess að flytja inn skipaviði og járn. Þeir gengu út í opinn dauðann, að því er virðist með grallarasöng á vör.
Þannig hefur raunar farið fyrir fleiri þjóðum, sem ekki kunnu að umgangast landið sitt. Þekktastir eru íbúar Páskaeyjar og fleiri eyja í Kyrrhafi. Þeir hjuggu og brenndu trén og létu kvikfénað rótbíta grösin. Á endanum sultu þeir í hel, af því að þeir kunnu ekki að laga sig að aðstæðum.
Við Íslendingar höfum fyrr og síðar ekki kunnað að laga okkur að landinu, lifa í því, heldur lifðum við á því alla tíð í hlutverki arðræningjans og nauðgarans. Landnámsmenn brutu skóg og brenndu, létu kvikfénað rótnaga haga og ristu þar á ofan torf af mýrum, allt án tillits til framtíðar.
Spellvirki Íslendinga ágerðust á tuttugustu öld, þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fundu upp takmarkalausan stuðning við aukna framleiðslu búvöru án tillits til þess, hvort nokkur markaður væri fyrir hana. Nauðgun landvættanna keyrði úr hófi fram á þeirri öld.
Nú hefur þjóðin tekið upp nýja ofvirkni í landspjöllum, undir forustu Framsóknarflokksins. Ráðizt er af kappi á ósnortin víðerni landsins til að leggja þau undir vegi, raflínur, stíflur og miðlunarlón með fokleirsströndum. Kárahnjúkavirkjun þeirra er orðin alþjóðlegt hneyksli.
Næst ætla þeir að ráðast á Þjórsárver og Langasjó og Torfajökul, heimsfrægar náttúruperlur. Við kunnum ekki frekar en frændur okkar í Grænlandi að virða landvætti.
DV