CONDOLEEZZA RICE er þessa dagana að segja ráðamönnum Evrópu að éta það, sem úti frýs. Þeir eigi ekki að vera að væla um pyndingar og annað ógeð, heldur styðja Bandaríkin, sem standi ein á vaktinni gegn ógnum hryðjuverka, líka í Evrópu.
MARGIR RÁÐAMENN vita upp á sig samsektina. Víða í Evrópu, ekki bara í Austur-Evrópu, hafa leyniþjónustur starfað með bandarísku leyniþjónustunni, sums staðar án vitundar stjórnvalda og annars staðar með vitund einstakra ráðherra.
EFTIR UMRÆÐUNA um pyndingar í bandarískum fangelsum í Evrópu hefur slíkum fangelsum skyndilega verið lokað, til dæmis í Póllandi og Rúmeníu og fangar fluttir annað. Síðustu fréttir segja, að þeir hafi verið fluttir til ríkis í Sahara.
RICE SEGIR, að Bandaríkjamenn stundi ekki pyndingar. Hún segir það, af því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur endurskilgreint pyndingar á þann hátt, að þær feli ekki í sér pyndingar. Kenningar hennar eru byggðar á hundalógík.
RICE GETUR ÞESS ekki í leiðinni, að Bandaríkjastjórn gerir greinarmun á því, sem gert er í Bandaríkjunum sjálfum og því sem gert er í fangelsum þeirra utan landamæranna og laganna, svo sem í Abu Gharib og Guantanamo, Póllandi og Rúmeníu.
NIÐURSTAÐA ferðar Rice er, að evrópsk stjórnvöld verða með japl og jaml og fuður. Þau vita, að almenningur er á móti pyndingastefnu Bandaríkjanna, en vita um leið, að þau eru sjálf meðsek og vilja ekki sífellt vera að rífast við Rice.
ÞÝZKALAND hefur nýjan kanzlara, sem vill viðra sig upp við Bandaríkin. Bretland samþykkir allt, sem Bandaríkin gera. Frakkland hefur forseta í sárum. Pólland er kaþólskara en páfinn. Slíkt lið getur ekki haft hemil á Bandaríkjunum.
DV