Menn bjarga sér á flótta

Greinar

Rétt var hjá Geir H. Haarde að láta vera eitt sitt fyrsta verk sem utanríkisráðherra að kalla íslenzka herinn burt frá Afganistan. Íslenzku hermennirnir voru þar undir fölsku flaggi friðargæzlu. Sumir þeirra slösuðust meira að segja við teppakaup í miðbænum í Kabúl. Og ástandið þar versnar.

Fyrir tæpum fimm árum þóttust Bandaríkin hafa unnið sigur á Afganistan, fyrstir í langri röð heimsvelda, sem höfðu reynt það, fyrst Alexander mikli og síðast Bretland og Sovétríkin sálugu. Markmið þessa meinta sigurs var að klófesta Osama bin Laden, sem hefur gert Bandaríkjamönnum lífið leitt.

Sigurinn yfir Afganistan er ekki meiri en svo, að Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa helzt völd í höfuðborginni Kabúl, þarf sem þeir hafa leppinn Hamid Karzai, sem engu ræður í landinu. Annars staðar ráða herstjórar og eiturlyfjasalar, svo og gamlir Talíbanar og ýmsir sjálfsmorðssjúklingar.

Á valdatíma Talíbana fyrir fimm árum hafði tekizt að draga mikið úr eiturlyfjaframleiðslu í Afganistan. Nú blómstrar hún meira en nokkru sinni fyrr. Hálf þjóðarframleiðslan er eiturlyf og nánast allur útflutningurinn. 90% af heróíni í Bretlandi kemur frá þessu afskekkta einskismannslandi.

Nú eru Bandaríkjamenn að leggja á flótta án þess að hafa fundið Osama bin Laden. Þeir vilja skilja boltann eftir hjá Atlantshafsbandalaginu, sem vantar hlutverk í lífinu. Spánn, Frakkland og Þýzkaland vilja þó hvergi koma nærri og Holland er að hætta. Áfram situr Bretland með heróínið í fanginu.

Afganistan er land, sem flýtur á eiturlyfjum. Það er ekki eiginlegt ríki, heldur flókin flétta af fjölskylduerjum og blóðhefndum, duldum bandalögum og leynimakki. Erlendum herjum hefur aldrei tekizt að ná fótfestu í þessu landi, sem lýtur engum lögmálum, sem stýra öðrum löndum í heiminum.

Geir hefur gefizt upp eins og Bandaríkin hafa gefizt upp. Það er gott og enn betra er, að lítið var tekið eftir framlagi Íslands, svo að það mun ekki hafa nein eftirköst að ráði. Ísland á ekki að láta á sér bera í hroka heimsveldanna og allra sízt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Ef Geir tekst að muldra sig út úr stríðinu um sæti í öryggisráðinu til viðbótar við að losna úr stríðinu við Afganistan, er hann orðinn með beztu utanríkisráðherrum.

DV