NÆSTUM ER búið að eyða botnfiski í Norður-Atlantshafinu samkvæmt fjölþjóðlegri rannsókn, sem sagt er frá í nýjasta hefti Nature. Síðan þorskveiðar fóru að gefa sig hefur áhugi sjávarútvegs beinzt að öðrum tegundum, með sömu afleiðingum.
BREZKA BLAÐIÐ Independent minnir á nokkrar tölur í þessu samhengi. Hlutfall þorsks, sem er yfir fimm ára, er 0.5% og hlutfall þorsks, sem er minna en tveggja ára, er 90%. Þetta segir okkur, að við erum smám saman að útrýma þorskinum.
SAMKVÆMT rannsókninni er allur botn Norðursjávar skrapaður að minnsta kosti einu sinni á ári. Þannig vinna togarar með botnvörpu. Þeir skrapa botninn og spilla heimkynnum fiska. Þetta hefur lengi verið vitað, en menn vilja ekki ræða það.
ÞORSKAFLI í heiminum hefur minnkað á hálfri öld úr 2,1 milljón tonna í 0,6 milljón tonn. Á íslenzkum miðum er ástandið ekki eins vont, en stefnir í sömu átt. Kvótakerfi og aflatakmarkanir hafa ekki bjargað íslenzka þorskinum.
HÉR Á LANDI hafa kvótakóngar og hafrannsóknastofnun, talsmenn sjávarútvegs í pólitík og sjávarútvegsráðherrar montað sig af öryggiskerfum, sem eiga að hindra hrun fiskistofna. Þorskfiskarnir eru samt farnir að hrynja.
SEM BETUR FER lifum við ekki lengur á fiskveiðum og þurfum til dæmis ekki lengur að falsa gengi krónunnar til að gefa kvótakóngum aukapening. Samt tuða þeir og talsmenn þeirra enn um of hátt krónugengi og of litlar aflaheimildir.
REYNSLAN VIÐ austurströnd Kanada sýnir, að séu þessir aðilar of aðgangsharðir við þorskinn, hrynur stofninn og nær sér ekki upp aftur, þótt miðin séu friðuð. Eins getur sagan orðið hér á landi. Við vitum þá, hverjum var um að kenna.
DV