Tvisvar hef ég komið í Þjórsárver og Arnarfell og sannfærzt um einstæða náttúru svæðisins. Ég er feginn, að Sjálfstæðisflokkurinn er að snúast á sveif með náttúruverndarsinnum, fyrst í óbeinni samstöðu með meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur og síðan með yfirlýsingu Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra á Alþingi um, að fyllilega komi til greina að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Framsóknarmenn tregðast enn við undir forustu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Þeir eru að verða utangátta í flokki með Landsvirkjun, sem hefur keyrt hratt í náttúruspjöllum.