Ein þekktasta stofnun heimsins á sviði mannréttinda, Human Rights Watch, sakaði fyrir helgina í ársskýrslu sinni ríkisstjórn George W. Bush um að hafa pyndingar að markvissri stefnu. Þetta hafi orðið mannréttindum áfall um allan heim, því að harðstjórar telji sig hafa frírra spil, úr því að áhrifamesta heimsveldið stundi pyndingar skipulega. Sérgrein Bandaríkjanna hefur verið að umorða pyndingar, kalla þær nýjum nöfnum. Í skýrslunni eru ríkisstjórnir í Evrópu sakaðar um að hafa vitað um pyndingarnar án þess að hafa gert neitt til að stöðva þær, meðal annars af því að þær vilja framar öllu halda friðinn við eina heimsveldi heimsins.