Nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur hvatt til umræðu um, að menn geti fengið betri heilbrigðisþjónustu en aðrir með því að borga aukalega fyrir það. Nefndin var skipuð fyrir hálfu þriðja ári til að kanna, hvernig hægt væri að mæta sívaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Þar er innbyggð verðbólga, sem eykur kostnað fyrir óbreytta þjónustu og gerir heilsukostnað þjóðarinnar smám saman óviðráðanlegan. Hann er nú kominn upp fyrir 10% af þjóðarbúskapnum og fyrirsjáanlegt er, að hann muni enn hækka hlutfallslega á næstu árum.