Ef vatnalögin fyrirhuguðu breyta litlu sem engu, eru þau óþörf. Feli þau hins vegar í sér einkavæðingu, eru þau vond, því að þjóðin lítur á vatn sem mannréttindi eins og loft. Hvort sem frumvarpið er óþarft eða vont, þá hefur flokkum ríkisstjórnarinnar ekki tekizt að selja hugmyndina. Úti í bæ eru allir á móti frumvarpinu, þar á meðal fjórtán samtök, sem hafa ályktað um málið. Það má hafa til marks um, að ríkisstjórn hafi misst samband við veruleikann, þegar hún reynir að keyra slíkt furðufrumvarp fram með löngum fundum um nætur og helgar.