Úthaginn er enn sinugrár og græni liturinn á heimahaganum er bara slikja. Hrossin rása um í leit að haga, þótt þau líti ekki við heyi, sem bíður þeirra í grindum. Vorið er komið 11. júní, þótt fara verði niður á tún til að finna tíu sentimetra gras. Vont er að stunda landbúnað í köldu landi, þar sem heyskapur byrjar um það leyti, er dagur er orðinn lengstur. Úti í heimi eru tvær eða þrjár uppskerur grænmetis og korns á hverju ári. Raunar er gífurlegur lúxus að halda uppi landbúnaði á 66°N, sem hentar til alls annars en einmitt þessarar iðju.