Bjarni á Sauðárkróki

Punktar

Heimsókn í krambúð Bjarna Haraldssonar á Sauðárkróki er fastur liður hvers landsmóts hestamanna á Vindheimamelum. Búðin hefur verið í þessu húsnæði innst í bænum síðan 1930. Þar eru enn upphaflegar innréttingar með sérstökum skúffum fyrir rúsínur, hveiti, sykur og aðra lausavigtarvöru. Bjarni afgreiðir enn í búðinni, sem faðir hans stofnaði fyrir tæpri öld. Ég man enn, hversu merkileg mér þótti þessi búð, þegar ég var strákur í sveit í Skagafirði og fékk að fara í kaupstaðarferð. Þá þegar var Krókurinn mikið menningarsetur með fagmönnum á öllum sviðum, jafnvel skósmið og úrsmið.