Komið hefur í ljós, að Björn Bjarnason stríðsráðherra og félagar hans í ríkisstjórn blekktu Alþingi til að samþykkja víðtæk lög um hryðjuverk, sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur ganga of langt. Björn og félagar þrengdu um of rétt fólks til að koma saman í friðsamlegum tilgangi. Því er engin furða, þótt menn skelfist hugmyndir ráðherrans um öryggislögreglu, sem stundi fyrirbyggjandi aðgerðir að hætti Bandaríkjanna. Hugmyndum af þessu tagi ber að hafna og síðan breyta lögum um friðsamleg mótmæli eftir kosningar, svo að borgaraleg réttindi séu hér hin sömu og í Evrópu.