Fáir aðrir en hestaferðamenn kynnast Löngufjörum, miklu landflæmi í fjörum Mýra, Hnappadals og Snæfellsnes. Sumpart eru þetta flatar leirur innan við eyjar og nes, Akraós, Kaldárós, Haffjarðarós og Straumfjarðarós. Vestar taka við hvítir skeljasandar frá Stakkhamri vestur að Arnarstapa. Allt er þetta land fjarri vegum, enda undir sjó tvisvar á sólarhring. Á sumrin er oft mikil umferð ferðahesta á svæðinu, margir að flýta sér að ná fjörunni í Hítará, Saltnesál, Haffjarðará, Straumfjarðará, Staðará eða Búðaósi. Milli þessara farartálma eru miklir skeiðvellir fjarri mannabyggðum.