Huliðseyjan

Punktar

Hjörsey er þriðja stærsta eyja Íslands, lítt þekkt og af fáum séð, enda er þar ekki vegur, höfn eða flugvöllur. Hún er upphafspunktur landmælinga á Íslandi, því að frá vörðu í eyjunni mældi danska herforingjaráðið fyrsta þríhyrninginn, sem varð upphaf að víðtæku kortasafni landsins. Hjörsey er grösug eyja í Faxaflóa út af Mýrum, hægt að sullast þangað á hestum á fjöru. Hún var kostajörð allar aldir og eru þar einnig tilnefndar sex hjáleigur. Kirkja var þar til 1896. Nú er ekki önnur byggð þar en í sumarbústað. Miðnæturreið út í eyjuna í kvöldroðanum væri góð lækning þeim, sem kvarta um, að þeir séu andvaka út af fuglagargi.