Kolbeinn ungi frétti norður í Skagafjörð af Suðurlandsferð Þórðar kakala. Kallaði hann saman 700 manna lið um Norðurland og hélt með flokkinn á Arnarvatnsheiði til að sitja fyrir Þórði í Borgarfirði. Á heiðinni brast á stórhríð og urðu nokkrir menn úti. Kolbeinn lét menn glíma til að halda á sér hita. Niður í Hvítársíðu komust þeir og og gerðu þau mistök að fara suður yfir Hvítá til hvíldar í Reykholti. Meðan þeir sváfu þar fór Þórður um Bæjarsveit og norður yfir Hvítá. Þá hófst mögnuð eftirför, sem lýst er af samtímamönnum í Sturlungu.