Það er fyrst gaman, þegar farið er að reka, sagði kunnur skólamaður fyrir hálfri öld. Hestaferðir með rekstur eiga djúp tengsli í sálarlífi manna og hesta. Flökkulífið heillar. Menn og hestar lesta sig í halarófu í átt að nýju vatnsbóli, nýjum haga. Þannig voru forfeður Íslendinga á gresjum Úkraínu fyrir 100 kynslóðum. Þá lifðu þeir á hestbaki og áttu ekki annað heimili. Minningin um þetta lifir í undirvitund fólks, sem á 30 kynslóðir að baki hér á þessu landi. Þar sem ævinlega hefur verið ferðast á hestum og fjarlægðir hafa ævinlega verið stuttar í hugum fólks.