Ráðherrar hafa tekið illa tillögum matvælaverðsnefndar. Sérstaklega eru Geir Haarde og Guðni Ágústsson viðskotaillir. Forsætisráðherra segir lægri matarskatt ekki munu skila sér í lægra matarverði, þótt sú hafi einmitt verið reynslan, þegar skatturinn var lækkaður. Landbúnaðarráðherra reynir að dreifa athyglinni með því að benda á verð á lyf og fatnaði. Innlend matvara og hátolluð erlend matvara eru þó þau atriði, sem mestu máli skipta í fjárhag almennings. Það er verndarstefnan, sem veldur hæsta matarverði í heimi. Hún er stjórnvöldum að kenna og engum öðrum.