Gamlaeyri fyrir mynni Kaldáróss er lengsti og bezti skeiðvöllur, sem ég veit um, sex kílómetrar af hvítum og rennisléttum skeljasandi. Ef hún væri í suðrænna loftslagi væri hún frábær sólbaðsströnd. Enginn sér þessa strönd nema fáir hestamenn. Enginn vegur liggur þangað og sjór liggur að henni á alla vegu milli Haffjarðarár og Saltnesáls. Á háfjöru ríða menn leirur út í eyrina til að fá sér skeiðsprett í fjörunni sjávarmegin. Beztan tíma fá menn milli flóða, ef þeir ríða frá Snorrastöðum yfir Saltnesál og taka síðan land í Stóra-Hrauni eftir að flæðir inn í álinn.