Fréttir eru vandinn

Punktar

Fínt apparat, sem heitir Hverfisráð Miðborgar, leitar leiða til að standa vörð um öryggi fólks í miðbæ Reykjavíkur. Í því skyni þykir ráðinu brýnast að bæta ímynd borgarinnar með því að draga úr neikvæðum fréttum fjölmiðla, sem segja frá ölæði og barsmíðum. Þótt ofbeldi hafi aukizt í borginni og harðnað að mun, þykir ráðinu happasælast, að okkur sé talin trú um, að ofbeldi fari samt minnkandi. Stutt er í, að ráðið krefjist banns á neikvæðar fréttir úr miðborginni, svo að ferðafólk og fólk utan af landi verði síður hrætt. Gott er að vita, að Hverfisráð Miðborgar hafi eitthvað fyrir stafni.