Áætlanir tímarita

Ritstjórn
Áætlanir tímarita

Edward Kosner, ritstjóri Esquire: Ritstjórn er eins og að tefla þrívíða hraðskák. Þú verður að sjá marga leiki fyrir í einu, verður að vita, hvað þú ætlar að gera, hvað aðrir muni gera. Halda áætlanir löngu áður en þú veist, hvort þær henta.

Ritstjórar tímarita þurfa að sjá langt fram í tímann og meta, hvaða efni og hvaða fólk verði mikilvægast, þegar tölublaðið fer í sölu. Þeir þurfa í tíma að setja af stað ferli, sem leiðir til birtingar á réttum tíma.

Tímarit hafa langan vinnslutíma, oft margra mánaða. Hugmynd sé skráð 16. feb, uppkast greinar komi 4. mars, lokaútgáfa hennar komi 22. apríl, grafískur hönnuður fái efnið 13. maí, efni fari til prentsmiðju 24. júní, birting 15. júlí.

Rieva Lesonsky, ritstjóri Entrepreneur Media: Einu sinni á ári veljum við tvö efni í hvert tölublað. Átta mánuðum fyrir útkomu áætlum við allt tölublaðið. Við getum síðar bætt við, en þú þarft að vera tilbúinn með löngum fyrirvara.

Það, sem er í nýjustu tísku í dag, er á útsölum eftir sex eða átta mánuði. Það er eitt erfiðasta hlutverk á tímaritum að gera sér grein fyrir, hvað muni vekja áhuga lesenda að svo löngum tíma liðnum.

Hugmyndir að efni koma með því að spá í næstu mánuði, með forvitni, með hugarflugi og einkum með góðu sambandi við höfunda, sem flytja með sér ferska vinda og koma aftur og aftur á óvart með atriðum, sem gera tímarit líflegt.

Steve Spence, ritstjóri Car and Driver: “Góðir höfundar, sem hafa áhuga á bílum og skrifum, verða ekki til úr engu. Við þurfum að finna þá, eins og flest tímarit. Oft finnum við þá hjá öðrum tímaritum, oft minni tímaritum.”

Steve Spence, ritstjóri Car and Driver: Margir höfundar hafa samband án þess að vita mikið um tímaritið. Þeir lesa eitthvað í dagblaði um vetnisbíla og vilja skrifa um þá. Saga þeirra hefur engan fókus, oftast almenns eðlis og leiðinleg.

Jackson Mahaney, ritstjóri Endless Vacation: Við biðjum um sterkan fókus, áhugaverð sjónarmið, vel rannsakaðar staðreyndir og góðan stíl. Mikið af hugmyndum verður til á ritstjórn. Við fylgjumst með og fáum hugmyndir.

Mike Curtis, ritstjóri The Atlantic: Endalaus röð er af verðandi greinahöfundum, sem halda, að það sé í lagi að skrifa texta upp úr alfræðibókum um hnúðbaka og ætlast til að við tökum því fagnandi.

Ekki er nóg að grípa handfylli af góðu efni og setja í tímaritið. Við verðum að vera viss um, að efnið sé í fókus blaðsins og að blanda tölublaðsins af efni sé rétt. Sérhvert tölublað þarf að spanna öll sérsvið, sem rúmast í fókusnum.

Karan Davis Cutler, ritstjóri Harrowsmith Country Life: Mikilvægast er að geta planlagt heilt tölublað og heilt ár af tölublöðum, geta séð fyrir sér jafnvægi innan tölublaða og milli þeirra, ákveða hvaða greinar fari saman og hvaða ekki.

Hvernig fara tvær greinar saman í einu tölublaði. Hvernig hindrum við, að tölublaðið sé tilviljanakennt. Þú vilt hafa fjölbreytni, en ekki að ein grein æpi á aðra. Blandan þarf að vera rétt.

Við munum, hvað var í síðustu blöðum, af því að við viljum ekki endurtaka okkur. Við tökum upp efni, af því að það hefur ekki verið lengi í blaðinu. Ef höfundar koma með hugmyndir, látum við yfirleitt þá sjálfa vinna úr þeim.

Algengt er að velja þrjá af umsækjendum í viðtal. Fá tímarit hafa próf, enda eru umsækjendur yfirleitt skólagengnir í blaðamennsku. Meiri líkur eru á ráðningu, ef menn hafa kynnt sig áður sem greinahöfundar.

Michael Bawaya, ritstjóri American Archeology: Furðanlega margir höfundar standa sig illa, sumir skelfilega, þótt þeir hafi góða ferilskrá. Ég reyni síðan að halda þeim góðum með því að láta þá fá gefandi verkefni og hrósa þeim fyrir verk.

Mariette DiChristina, ritstjóri Popular Science: Þetta eru gefandi og þreytandi störf. Hafðu fundi með starfsfólki. Láttu það vita um stefnu blaðsins og veittu því stuðning, láttu áhuga þess og vinnusemi njóta sín.

Ritstjórar tímarita þurfa að hafa höfunda ánægða og fá þá til að ná betri og betri árangri. Þessi spenna milli ræktunar og þrýstings er það, sem gerir samband ritstjóra og höfunda svo viðkvæmt og ögrandi.

Veldu höfunda af kostgæfni. Þoldu ekki, að menn fari á mis við tímaáætlun, skrifi kæruleysislega eða hagi sér eins og unglingar. Hafðu fyrirmælin skýr og nákvæm. Kvartaðu ekki yfir 8000 orða grein, þegar þú gleymdir að biðja um 2000 orð.

Vertu í sambandi við höfundana og finndu, hvernig þeim gengur. Komdu í veg fyrir þröskulda, sem tefja skil. Ritstjóri, sem ekki er í sambandi, verður oft illa undrandi, þegar greinar koma ekki á tilsettum tíma.

Ritstjóri getur ekki gert ráð fyrir, að allt sé á áætlun af sjálfu sér. Hann spyr: “Hvernig gengur? Nokkur vandræði? Ég hlakka til að sjá greinina. Mér datt í hug þetta viðtalsefni. Náðirðu í þennan? Ég er feginn, að allt gangi vel.

Ritstjóri hefur aðrar greinar tilbúnar, ef ein bregst. Hann getur þurft að biðja höfund um að endurskrifa grein. Reyndir höfundar gera ráð fyrir slíku og andmæla ekki. Það er bara skref í átt að niðurstöðu í eins góðri grein og hægt er.

Ekki tala úr og í. Segðu nákvæmlega, hvað þú vilt. Biddu um nýjan inngang. Biddu um 500 orða styttingu. Settu skil á ákveðinn dag. Hafðu ekkert óljóst. Láttu umskrifa hluti, höfundum finnst það betra en að einhver annar geri það.

Michael Bawaya, ritstjóri American Archeology: Ég hjálpa höfundum, reyni að benda þeim á galla í frásögn og stíl og geri tillögur. Ég vil heldur, að þeir lagi málin sjálfir, gef þeim skýrar leiðbeiningar, svara spurningum og er til viðtals.

Bawaya áfram: Ég vona, að þeir tali um það, sem þeim finnst óljóst. Ég tel mikilvægt, að ritstjórar sýni höfundum og texta virðingu. Ég þarf ekki fingraför mín um allt, en fæ töluvert af slæmum texta. Ég vil að textinn sé höfundarins.

Gerðu alltaf ráð fyrir tíma til endurritunar. Höfundar, sem fá tækifæri til að bæta sig, gera það yfirleitt. Stundum neyðist ritstjórinn til að grípa í taumana, af því að höfundurinn ræður ekki við málið eða er farinn að gera annað.

Sjáðu um, að höfundum sé greitt tímanlega. Stattu strax við gerða samninga. Láttu ekki skriffinnsku tefja greiðsluna. Settu strax í gang pappírsvinnu, sem leiðir til þess, að tékkinn sé á réttum tíma í póstinum.

Jeff Csatari, ritstjóri Men’s Health: Finndu góða höfunda með því að prófa þá. Haltu þeim með því að bjóða þeim áhugaverð verkefni. Hafðu þá jákvæða með persónulegum samskiptum. Segðu álit þitt og hrósaðu þeim. Borgaðu þeim strax.

Margot Slade, ritstjóri Consumer Reports: Þegar ég sé fyrst handrit, hugsa ég um það, en krota ekki í það. Ég geri það ekki fyrr en ritstjórnarfulltrúinn hefur farið yfir greinina. Þá set ég inn athugasemdir. Ég er ekki prófarkalesari.

Þegar handrit kemur í pósti, lokar þú að þér og gefur þér góðan tíma. Krotaðu ekki í neitt. Lestu allt handritið fyrst. Fylgstu með tilfinningum þínum, hugsunum og viðbrögðum. En breyttu engu. Lestu bara.

Breytingar gerir þú ekki fyrr en þú hefur skilið allt handritið frá upphafi til enda. Annars veistu ekki nóg til að gera breytingar. Láttu síðan höfundinn gera breytingarnar. Þeir vilja gera þær sjálfir. Leiðréttu ekki villur á þessu stigi.

Fyrsta verkið er að meta handritið í heild, ekki að meta hverja málsgrein þess fyrir sig. Það þýðir lítið að leiðrétta villur í málsgreinum, sem síðan verða ekki birtar. Þú byrjar á stóru línunum og endar á smáatriðunum.

Grein, sem lesendur skilja ekki, tapar þeim. Fáðu vit í textann með því að spyrja spurninga:
1. Heldur greinin sig við eitt efni?
2. Er hún vel skipulögð?
3. Svarar hún öllum spurningum, sem upp koma?
4. Skilur greinin eftir lausa enda?
5. Talar hún um það, sem hún talar um?
6. Er hún skiljanleg fólki með venjulegan orðaforða?
7. Er stærðfræðin í lagi?
8. Er rökfræðin í lagi?
9. Á að hafa sumar staðreyndir í öðru formi?

Fækkun efnisatriða niður í eitt bætir grein. Fækkun endurtekninga bætir grein. Betri röðun efnis bætir grein. Millifyrirsagnir bæta grein. Ritstjóri, sem ekki hefur séð greinina áður, bætir hana.

Endaðu röksemdafærslu, sem hafin er. Lagaðu greinina að fókusnum eða lagaðu fókusinn að greininni. Sparaðu “ég” texta. Forðastu tungumál fagstétta. Varaðu þig á samheitabókum. Orð reynast yfirleitt ekki vera samheiti.

Settu staðreyndir í graf. Það léttir á megingreininni og gerir sögu hennar aðgengilegri. Þeir, sem hafa áhuga á staðreyndum, skoða grafið, hinir halda áfram með greinina.

Ef ekki er vit í grein, skiptir annað ekki máli. Þú verður að ná sambandi við höfundinn, skýra málið fyrir honum, semja við hann um nýjan skilafrest og vera í sambandi við hann meðan á endurritun stendur.

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé