Mér finnst Egill Helgason skrifa um raforku eins og nýja orkan sé að veita okkur birtu og yl. Hún sé að hleypa afa hans úr einangrun, þar sem ekki sást til næsta bæjar. Langt er síðan landið orkuvæddist, hálfur fjórði áratugur. Síðan þá hefur orka verið næg. Enginn þarf að óttast orkuskort, þótt ekki sé virkjað til síðasta blóðdropa. Menn geta verið andvígir Kárahnjúkavirkjun, án þess að vilja flytja þjóðfélagið aftur um hundrað ár. Menn geta til dæmis verið andvígir, að fólk sé látið niðurgreiða raforku til stóriðju. Andstaða við risaorkuver er engin rómantík.