Ég er kominn á þá skoðun, að japönsk matargerðarlist sé franskri æðri, þótt ég hafi hingað til verið hallur undir þá frönsku. Sú japanska nær hástigi í einfaldleika, eins og japanskur húsbúnaður er agaðri, hreinni og einfaldari en jafnvel norrænn húsbúnaður. Sushi er bezti japanski maturinn, hrár og kryddleginn fiskur og hrísgrjón sett á borð í munnbitum, einum í einu. Ég sat um daginn við sushi-barinn á Nobu á Metropolitan í London og fékk hvern sushi-bitann á fætur öðrum. Sú matreiðsluhefð gefur ekkert svigrúm fyrir gamlan fisk. Ferskleikinn neistar af öllu. Svona munum við borða í himnaríki.