Við hæfi er, að vinnumiðlun sé fyrsti flokkurinn, þar sem menn reyna að múta sig inn á framboðslista. Hjörleifur Hallgríms á Akureyri býðst til að greiða tvær milljónir króna fyrir þriðja sætið á framboðslista Framsóknar á Norðausturlandi í vor. Hann er að reyna að kaupa sér von í þingsæti, því að vinnumiðlunin hefur fjóra þingmenn í kjördæminu. Svo hjartahrein er þessi spilling, að hún gerist ekki undir borði, heldur fyrir opnum tjöldum. Málsaðilar hafa ekki hugmynd um, hvað er spilling. Og fjölmiðlarnir vita það ekki heldur, því að þar hefur ekki kviknað ljós.