Skemmtilegasti texti, sem ég hef lesið þetta árið, er klausa á bls. 76 í Króníkunni. Þar rekur Barlómurinn orðanotkun stjórnmálamanna, þegar þeir vilja forðast að segja sannleikann. Þar er losun gróðurhúsalofttegunda kölluð “umhverfisvæn notkun endurnýjanlegra orkugjafa” og stóriðjustefna er kölluð að “hafa málið í vönduðum farvegi.” Þar eru risaálver kölluð “deiliskipulag” og miðlunarlón kölluð “rólegt, manngert landslag”. Ég man ekki eftir nokkurri eins samþjappaðri lýsingu á froðusnakki og undanbrögðum landsfeðra og felst í þessari ágætu grein Barlómsins.