Engum öðrum en Íslendingum dytti í hug að borga 200-250 króna seðilgjald fyrir að njóta þeirrar náðar að fá senda reikninga. Gjaldið er margfaldur pappírs- og póstkostnaður sendibréfs og er þar á ofan ný uppfinning í veraldarsögunni. Í Evrópu yrði uppreisn, ef reynt yrði að koma á slíku gjaldi.
Aðeins Íslendingar eru svo kúgaðir af langvinnu okri, að þeir telja það eðlilegan gang samfélagsins. Okur er ekki bara stundað af bönkum og símum, tryggingum og olíu. Það er stundað af öllum þeim fyrirtækjum, sem leyfa sér að rukka seðilgjöld. Hátt verðlag og hugmyndarík gjöld eru afleiðing af eymd þjóðarinnar.
Brynjólfur og Friðrik
Einu sinni hélt ég, að Brynjólfur Bjarnason og Friðrik Sófusson væru meðal merkisbera frjálsrar samkeppni, teldu markaðshagkerfi beztu leið almennings. Nú eru báðir lengi búnir að vera þekktir okrarar, forstjórar einkavæddra einokunarfyrirtækja, Brynjólfur hjá Símanum og Friðrik hjá Landsvirkjun.
Svo langt eru þeir leiddir í einokun, að þeir hafa orðið að játa ölöglegt samráð um að hindra samkeppni og um að skipta með sér markaði. Brynjólfur er sagður vera upphafsmaður glæpsins og hafa ginnt Friðrik til samstarfs. Síminn var sektaður um 55 milljónir og Landsvirkjun um 25 milljónir. Skiptimynt fyrir okrara.
Einkavæðing var fáokun
Markaðsfræðin segir, að verðlagseftirlit sé óþarft, því að frjáls samkeppni sjái um að halda niðri verði. Þessu höfum við trúað og þess vegna aflagt brokkgenga ríkisstofnun verðlags. Veruleikinn er hins vegar annar. Einkavæðing breytti bara einokun í fáokun. Þar hefur samkeppni í bezta falli reynzt tímabundin.
Ungt dæmi er frjálsa rafmagnið, sem ekki hefur lækkað reikninga fólks. Fáokun er eðlilegt lokastig, hvort sem upphaf hennar er einokun eða samkeppni. Nú síðast er bifreiðaskoðun komin á lokastig einokunar, Frumherji hefur étið Aðalskoðun. Einkavæðing ríkisins býr jafnan til fáokun, alls ekki samkeppni.
Hæstu vextir Evrópu
Karl Marx og Friedrich Engels bulluðu mikið, en höfðu þó að því leyti rétt fyrir sér, að rökrétt niðurstaða markaðslögmála er einokun. Fyrirtæki éta hvert annað, unz tvö eða þrjú standa til málamynda eftir og semja um markaðinn. Þetta kölluðu þeir, að borgarastéttin æti sjálfa sig.
Við þekkjum þetta vel hér. Samkeppni er aðeins á afmörkuðum sviðum, svo sem í bílainnflutningi, sumarferðum og í nýlenduvöru. Skiptir þá engu, hvort önnur fyrirtæki auglýsa grimmt eins og bankarnir. Þeir auglýsa ekki bætt kjör, enda hafa þeir vond kjör fyrir alla og hæstu vexti í Evrópu.
Þolgæði þjóðarinnar
Við berum okkur stundum saman við Norðurlönd og teljum ekki miklu meira okrað á okkur en á nágrönnunum. Við berum okkur síður saman við meginland Evrópu, þar sem verðlag er aðeins tveir þriðju á við það, sem hér er. Og við berum okkur alls ekki saman við Bandaríkin, þar sem bara er hálft íslenzkt verðlag.
Á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og í Japan eru vextir 0-3 prósent og hafa lengi verið. Hér á landi þola kjósendur, að vextir séu 10-20%. Samt er stór hluti þjóðarinnar ungt fólk, sem stendur andspænis húsnæðiskaupum og sér ekki nokkra leið til að ráða við þau, þótt kaup sé gott og yfirvinna nóg.
Verðskyn lagaðist ekki
Endurreist verðlagseftirlit gæti afnumið seðilgjöld og lækkað verð á þjónustu fyrirtækja á sviðum síma, orku, olíu og trygginga, einkum þó banka, sem eru gráðugastir. Í árdaga Hannesar Hólmsteins var þó sagt, að eftirlit borgara skuli leysa eftirlit ríkis af hólmi, því annars verði ekki til neitt verðskyn fólks.
Við höfum lengi prófað að hafna verðlagseftirliti, en samt hefur verðskyn Íslendinga ekki lagast um eina spönn. Eitt af merkustu lögmálum markaðshagfræðinnar gildir nefnilega ekki í landi, sem á Evrópumet í vöxtum.
Jónas Kristjánsson
DV