Litlu, sætu dúfurnar og karrarnir þeirra fylla Domo í Þingholtsstræti á kvöldin. Þeim finnst hipp og kúl að koma þangað, fjárhagslega vaxin upp úr hamborgurum og pítsum. Maturinn er frambærilegur, en hefur þann eina metnað að sýnast. Uppsetningin á diska er mikilvægari en bragðdauf matreiðsla, sem kýlir ekki einu sinni á “fusion”-tízku með sterku kryddi. Japanskt sushi er betra og ódýrara í Maru í Aðalstræti. Sem tízka í mat er Domo daufari kostur en Apótekið í Pósthússtræti, sem áður var hipp og kúl. Ekta matreiðsla er rýrnandi þáttur í pakkanum, sem ræður vinsældum hipp og kúl veitingahúsa.