Ég óttast 240 manna varalið Björns Bjarnasonar og Haraldar Johannessen. Þeir girnast svona lið, af því að þeir telja jaðra við landráð að vera þeim ósammála í pólitík. Ég treysti þeim ekki fyrir 240 manna herliði. Mér er sama, hvort herinn hans Björns heitir varalið, hvítliðar eða SS-sveitir. Ég veit, að þær munu soga til sín menn, sem þrá að berja fólk. Svoleiðis hefur það alltaf verið, alls staðar í heiminum. Við þurfum að vísu að passa hafnir og flugvelli. En við þurfum ekki sveitir til að siga á fólk. Við höfum í áratugi komist af án slíkra. Og svo mun verða um langan aldur.